Afhending samfélagsstyrkja Orkubús Vestfjarða 2017

2. mars 2018 kl. 11:33
Frá afhendingu á Patreksfirði
Frá afhendingu á Patreksfirði
1 af 7

Formleg afhending styrkjanna fór fram í dag kl. 11:00 í húsnæði OV að Stakkanesi Ísafirði, Eyrargötu Patreksfirði og Skeiði 5 Hólmavík.

Alls bárust 55 umsóknir og að þessu sinni voru veittir 43 styrkir samtals að fjárhæð 3.600.000 kr.

Þeir sem hlutu styrk að þessu sinni voru: 

 • Blakdeild Vestra: Blakboltar og körfur fyrir bolta - 50.000 þús. kr.
 • Samgöngufélagið: Búnaður til útvarpsútsendinga í veggöngum - 100.000 þús. kr.
 • Héraðssamband Vestfirðinga: Áhaldakaup - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Björg Suðureyri: Tækjabúnaður í björgunarbát - 250.000 þús. kr.
 • Héraðssamband Vestfirðinga, HSV: Fræðsluverkefni - 50.000 þús. kr.
 • Héraðssamband Vestfirðinga, HSV: Brettaæfingar í íþróttaskóla HSV - 50.000 þús. kr.
 • Sunnukórinn: Söngdagskrá í tilefni 100 ára fullveldis Íslands - 50.000 þús. kr.
 • Foreldrafélag leik- og grunnskóla Önundarfjarðar: Gönguskíði fyrir leik-og grunnskóla - 100.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Grettir Flateyri: Efniskaup og smíði á gönguskíðaspori - 50.000 þús. kr.
 • Íþróttafélagið Vestri: Siðareglur og jafnréttisáætlun - 50.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Ernir: Ljósbúnaður á snjóbíl - 100.000 þús. kr.
 • Víkingar á Vestfjörðum kt. 480104-3580: Viðhald á hátíðarsvæði Þingeyringa - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarfélag Ísafjarðar: Endurbætur á sjúkraföngum og persónubúnað - 100.000 þús. kr.
 • Sæfari,félag áhugamanna um sjósport á Ísafirði: Ungmennastarf - 100.000 þús. kr.
 • Hestamannafélagið Stormur: Barna og unglingastarf - 50.000 þús. kr.
 • Foreldrafélag Grunnskólans í Bolungarvík: Örnámskeið fyrir nemendur og foreldra - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélag Bolungarvíkur: Búnaðarkaup - 100.000 þús. kr.
 • Knattspyrnufélagið Hörður: Íslandsmót 5fl. o.fl - 50.000 þús. kr.
 • Laufey Eyþórsdóttir: Stuðningur við fólk á einhverfurófi - 50.000 þús. kr.
 • Leikfélag Menntaskólans á Ísafirði: Leiksýning - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Tindar Hnífsdal: Uppfærsla á fyrstuhjálparbúnað - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitini Sæbjörg á Flateyri: Þakviðgerð - 100.000 þús. kr.
 • Elfar Logi Hannesson: Leiklistarsaga Dýafjarðar - 50.000 þús. kr.
 • Kómedíuleikhúsið: Einar Guðfinnsson söguleg leiksýning - 50.000 þús. kr.
 • Act alone: Leiklistarhátíðin Act alone 2018 - 50.000 þús. kr.
 • Höfrungur leikdeild: Uppsetning á Ronju Ræningjadóttur - 50.000 þús. kr.
 • Heilsubærinn Bolungarvík: Farþegahjólakaup - 100.000 þús. kr.
 • Sköpunarhúsið 72 ehf: Húsið-House of Creativity - 50.000 þús. kr.
 • Sjómannadagsráð Patreksfjarðar: Sjómannadagurinn á Patreksfirði - 200.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Blakkur: Lagfæring á bíl - 200.000 þús. kr.
 • Blús milli fjalls og fjöru.: Tónlistarhátíð - 50.000 þús. kr.
 • Sundfélagið Grettir og Hollvinafélag Gvendarlaugar hins góða: Hleðsla umhverfis Gvendarlaug - 50.000 þús. kr.
 • Gunnar Smári Jóhannesson: Leiklistarnámskeið fyrir börn og unglinga - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Geislinn: - 100.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Dagrenning Hólmavík: Endurnýjun tölvubúnaðar - 150.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Leifur heppni: Uppsetning og kaup á klórkerfi - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið -Afturelding-(UMFA): Barna-og unglingastarf - 100.000 þús. kr.
 • Albert Páll Sigurðsson: Gera upp Ólafarbrunn í Flatey - 50.000 þús. kr.
 • Ungmennafélagið Neisti: Kaup á róðravél  - 50.000 þús. kr.
 • Skíðafélag Strandamanna: Æfingaferð til Svíþjóðar með krakka - 50.000 þús. kr.
 • Björgunarsveitin Björg Drangsnesi: Snjóflóðabakpokar fyrir vélsleða - 150.000 þús. kr.
 • Nemendafélag Reykhólaskóla: Ungmennahelgi Laugum í Sælingsdal - 100.000 þús. kr.
 • Leikfélag Hólmavíkur: Leiksýning - 50.000 þús. kr.

 Meðfylgjandi myndir eru frá afhendingu samfélagsstyrkjanna á Stakkanesi og á Patreksfirði.

 

Samfélagsstyrkir Orkubús Vestfjarða fyrir árið 2017

1. mars 2018 kl. 09:16
Frá afhendingu samfélagsstyrkja fyrir árið 2016
Frá afhendingu samfélagsstyrkja fyrir árið 2016

Alls bárust 55 umsóknir og að þessu sinni verða veittir 43 styrkir samtals að fjárhæð 3.600.000 kr.

 

Formleg afhending styrkjanna fer fram í húsnæði OV að Stakkanesi á Ísafirði, Skeiði Hólmavík og Eyrargötu Patreksfirði á morgun, 2. mars kl. 11:00.

 

Búið er að tilkynna styrkþegum um styrkveitinguna.

 

Þess er vænst að styrkþegar eða fulltrúar þeirra mæti og taki við skjali til staðfestingar styrkveitingunni og þiggi kaffiveitingar.

 

 

Sanngirni gætt við stofnun Orkubús Vestfjarða

9. febrúar 2018 kl. 13:46
Elías Jónatansson, orkubússtjóri
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

Á dögunum kom upp umræða um vatnsréttindi í eigu Orkubús Vestfjarða, í tengslum við litla virkjun í Skutulsfirði.  Umræðan um vatnsréttindi OV er ekki ný af nálinni og hefur reyndar stundum farið út um víðan völl og ekki byggt alfarið á staðreyndum málsins.  Hér verður vikið nokkrum orðum að stofnun Orkubús Vestfjarða og fjárhagslegum forsendum þess gjörnings í tengslum við vatnsréttindi félagsins.

Ráðstöfun vatnsréttinda til Orkubúsins
Í umræðunni krystallast sá meiningarmunur sem komið hefur upp í viðræðum Orkubúsins við sveitarstjórnarmenn á Vestfjörðum í tengslum við afhendingu þeirra á vatnsréttindum til Orkubúsins við stofnun þess.  Orkubú Vestfjarða telur að samningar sem undirritaðir voru við sveitarfélögin taki af allan vafa um eignarhaldið á vatnsréttindunum, en efasemda hefur gætt hjá ýmsum fulltrúum sveitarstjórna. 

Samningarnir sem gerðir voru við sveitarfélögin eru að vonum mjög keimlíkir og er hér dæmigert orðalag slíkra samninga eins og það kemur fyrir í samningi við Ísafjarðarkaupstað á sínum tíma.  (Feitletranir eru höfundar)

Í samningnum segir í 5. grein:
„ Frá og með 1. janúar 1978 afhendir bæjarstjórn Ísafjarðar Orkubúi Vestfjarða allan rétt til virkjunar vatnsafls, jarðhita og fallvatns, sem Ísafjarðarkaupstaður eða Rafveita Ísafjarðar á eða kann að eiga í löndum kaupstaðarins, rafveitunnar eða annars staðar og kaupstaðurinn kann að hafa samið um.  Nær þetta jafnt til þekktra sem óþekktra réttinda.  Jafnframt er Orkubúi Vestfjarða veittur réttur til hvers konar rannsókna og tilraunaborana í löndum Ísafjarðarkaupstaðar og hagnýtingar þerra upplýsinga er við það fást, en gefa skal bæjarstjórn Ísafjarðar kost á að fylgjast með rannsóknum og niðurstöðum þeirra.  Hafa skal samráð við bæjarstjórnina áður en rannsóknir eða boranir eru ákveðnar og haga þeim svo að sem minnst röskun verði fyrir kaupstaðinn eða íbúa hans.“ 

Sambærilegt ákvæði er að finna í 5. grein afsalsins.

Engum vafa er því undirorpið að sveitarfélögin létu af hendi vatnsréttindi sem tilheyra landi í þeirra eigu, en eignuðust í staðinn hluti í Orkubúi Vestfjarða.  Þetta var gert með fullri vitund og vilja þeirra sem fóru með samningsumboðið fyrir hönd sveitarfélaganna.

Greiðsla fyrir vatnsréttindin
Margir núverandi sveitarstjórnarmenn vilja meina að ekki hafi verið greitt fyrir vatnsréttindin á sínum tíma og telja jafnvel vafa leika á því að þau séu í raun og veru eign Orkubús Vestfjarða.  Því fer hinsvegar víðs fjarri enda verður það að teljast ólíklegt að allir helstu forystumenn sveitarfélaga á Vestfjörðum hefðu látið hlunnfara sín sveitarfélög með þeim hætti.  Samningurinn var gerður við 32 sveitarfélög á Vestfjörðum sem samtals eignuðust 60% hlut í Orkubúi Vestfjarða.  Samningurinn er undirritaður af tugum sveitarstjórnarmanna þess tíma.

Við stofnun Orkubús Vestfjarða lagði ríkið m.a. inn sem stofnfé, Mjólkárvirkjun, Þverárvirkjun og Reiðhjallavirkjun ásamt vatnsréttindum þeirra og aðalorkuflutningslínum sem voru í eigu Rarik.  Ekki verður rakinn hér stofnefnahagsreikningur Orkubúsins, en rétt er að geta þess að þær eignir sem voru taldar upp hér á undan námu um 59% af höfuðstól í efnahagsreikningi eftir að áhvílandi skuldir hafa verið dregnar frá.  Eignir sveitarfélaganna og veitna í þeirra eigu hafa því numið um 41%.  Tiltekið var í samningum við sveitarfélögin að vatnsréttindi þeirra væru hluti af stofnframlagi í Orkubúi Vestfjarða eins og fram kom hér á undan.  Vatnsréttindin eru ekki bókfærð, en eru tilgreind í skýringu 15 í ársreikningi Orkubúsins 2016, sem eignir utan efnahags. 

Lög og reglugerð um Orkubú Vestfjarða
Í lögum um Orkubú Vestfjarða nr. 66/1976 segir í 3. grein að eignarhluti ríkissjóðs skuli vera 40% en eignarhlutur sveitarfélaganna skuli nema samtals 60% og skiptist innbyrðis í hlutfalli við íbúatölu þeirra.  Hið sama kemur fram í reglugerð um Orkubú Vestfjarða nr. 192/1978.

Samningurinn hagstæður sveitarfélögunum
Skipting á heildareign sveitarfélaganna og eign ríkisins var ákveðin með reglugerð sem studd var lögum og ekki verður annað séð en að sveitarstjórnarmenn hafi haldið vel á spilunum fyrir sína umbjóðendur með því að fá 60% eignarhald í félaginu á móti 40% eign ríkisins.  Sveitarfélögin fengu þannig verulega stærri hlut í félaginu en sem nam þeim fastafjármunum og veltufjármunum sem þau lögðu fram.   Það skýrist ekki síst af væntingum á nýtingu þeirra vatns- og jarðhitaréttinda sem fylgdu með í kaupunum.

Það má öllum vera ljóst að skipting á eignarhaldi sveitarfélaganna fór ekki nákvæmlega eftir því hvaða eignir þau höfðu lagt til hvert um sig, heldur fór hluturinn eftir íbúatölu viðkomandi sveitarfélags.  Á sama hátt er það augljóst að eignarhlutur sveitarfélaganna var mun hærri en nam þeim fastafjármunum og veltufjármunum sem þau lögðu til félagsins.

Augljóst má því vera að sveitarfélögin báru ekki skarðan hlut frá borði þegar samið var um eignarhald Orkubúsins og þau eignuðust 60% hlut á móti 40% hlut ríkisins.  Þar ber þó að hafa í huga að sveitarfélögin voru að setja inn í félagið bæði þekkt og óþekkt vatnsréttindi sín á meðan ríkið var að setja inn þekkt og óþekkt vatnsréttindi tengd virkjununum sínum.

Orkubú Vestfjarða ohf
Orkubúi Vestfjarða var breytt úr sameignarfélagi í hlutafélag með lögum nr. 40/2001.  Í kjölfar þess keypti ríkið hluti sveitarfélaganna á árinu 2001 og 2002, fyrir samtals 2.760 m.kr.  Uppreikna má þá fjárhæð með vísitölu til verðtryggingar og fæst þá sú niðurstaða að ríkið hafi greitt sveitarfélögunum 5,8 milljarða fyrir hluti þeirra í Orkubúinu, reiknað á verðlagi dagsins í dag. 

Á því má vissulega hafa mismunandi skoðanir hvort fjárhæðin var nægilega há.  Það má líka hafa á því skoðun hvort sveitarfélögin hafi breytt rétt með ákvörðun sinni um að selja og að vera ekki lengur eigendur í Orkubúi Vestfjarða.  Út frá fjárhagslegu sjónarmiði verður þó að teljast ólíklegt að það kæmi sér endilega betur fyrir sveitarfélögin að vera með 5,8 milljarða króna bundna í eignarhaldi á Orkubúinu.

Sanngirni gætt
Mín skoðun er sú að gætt hafi verið fyllstu sanngirni í samningum á milli aðila og að vissulega hafi verið tekið tillit til þess að Orkubúið væri að eignast þekkt og óþekkt vatnsréttindi sem áður voru í eigu sveitarfélaganna. Það er von mín að hér hafi tekist að varpa nokkru ljósi á aðdraganda þess að Orkubú Vestfjarða eignaðist vatnsréttindi sveitarfélaganna á Vestfjörðum og að þeir heiðursmenn sem stóðu að stofnun Orkubús Vestfjarða fyrir hönd sveitarfélaganna og ríkisins njóti kannski meira sannmælis en þeir oft hafa gert í umræðunni.

 

Ísafirði, 9. febrúar 2018,
Elías Jónatansson, orkubússtjóri

 

Hvalárvirkjun, uppistöðulón og stíflur

17. janúar 2018 kl. 14:10

Mikið hefur verð rætt um Hvalárvirkjun að undanförnu og sitt sýnist hverjum.  Þegar rætt er um verklegar framkvæmdir, hvort heldur það eru orkumannvirki eins og þau sem tengjast Hvalárvirkjun, vegagerð út á landsbyggðinni eða jafnverl varnarmannvirki fyrir skriðu og snjóflóðum, þá á almenningur oft á tíðum erfitt með að átta sig á umfangi viðkomandi mannvirkja úti í náttúrunni fullbyggð og búið að ganga frá.  Hvað þá heldur að átta sig á ásýndinni nokkrum árum eftir lok framkvæmda, t.d. hversu fljótt gróður hefur náð sér á strik og veðrun á grjóti er búinn að þróast. 

Þótt Orkubú Vestfjarða sé ekki aðili að Hvalárvirkjun, þá má segja að aðrar virkjanir á Vestfjörðum, sem eru í undirbúningi, þurfa einnig að fara í leyfis og skipulagsferli og ekki úr vegi að sýna yfirstaðnar framkvæmdir sem innlegg í umræðuna.   Eitt af því sem fólk á erfitt að átta sig á er umhverfisáhrif jarðvegsstíflanna, sem um leið eru hluti af nýtingu náttúrulegra vatna ofan inntaks virkjana.  Það vill svo til að landslag í Steingrímsfirði kringum Hólmavík er ekki ósvipað landslaginu í Ófeigsfirði. Ávöl klapparholt með górðurþekju á milli hjalla, en ekki háar og brattar hlíðar eins og er víða annarstaðar á Vestfjörðum.  Í næsta nágernni við Hólmavík er virkjun í eigu Orkubúsins sem heitir Þverárvirkjun og er 2,2 MW að stærð.  Árið 1999 til 2001 var virkjunin og stíflan endurbyggð. 

Stíflan var hækkuð um 12 metra og um leið varð hún gerð að jarðvegsstíflu.  Helsti munurinn á stíflustæði Þverárvirkjunar og Hvalárvirkjunar, er að stíflan er í landhæð 90 metra yfir sjávarmáli og gróðurþekjan mun meiri en í Ófeigsfirði þar sem stíflurnar eru í landhæð yfir 300 metrum.  Eftir endurbyggingu, þá er þessi stífla svipuð og hinar fimm, sem fyrirhugað er að byggja vegna Hvalárvirkjunar, og það þótt Hvalá sé 20 sinnum stærri í afli.  Stífla Þverárvirkjunar er nú 22 metra há og lengdin er 550 metrar.   Stíflur Hvalárvirkjunar eru frá 13 til 33 metra á hæð og lengdir frá 150 til 1.000 metra.   Það má kannski orða það þannig að stífla Þverárvirkjunar er gott meðaltal af hinum fimm.  Hér á eftir er sýnd loftmynd af stíflunni og tvær ljósmyndir.  Skýringartexti er skrifaður við hverja mynd.

Mynd 1.  Mynd úr kortagrunni Loftmynda ehf.  Mesta hæð stíflu er 22 metrar þar sem pípa og botnloka er staðsett og náttúrulegt afrennsli vatnsins var áður.  Lengd stíflunnar er 550 metrar.  Vegtengingarnar loftmegin uppá stífluna eru ekki brattar því hæð stíflunnar er lítil þar sem þær eru.  Það vantar um 2 metra uppá til að vatnið sé fullt.

Mynd 2.  Yfirlitsmynd sem sýnir Þiðriksvallavatn, sem er uppistöðulón Þverárvirkjunar, og 550 metra langa stíflu, sem nánast hverfur inní landslagið á þessari mynd.  Stöðvarhús virkjunarinnar til vinstri.  Í sömu átt og stíflan sést, ef vel að er gáð, rafmagnsstaur, sem er 8 metra yfir yfirborði landsins þar sem hann stendur og stíflan þar aftanvið.

Mynd 3.  Myndin er tekin neðan við hæsta hluta stíflunnar uppá öðrum gilbarminum til að sýna hversu fljótt stíflan lækkar í hæð beggja megin við gilið sem er dæmigert fyrir stíflur við náttúruleg vötn á Vestfjörðum.  Hæð stíflunnar þar sem hún er mest (22 metrar), en er lítill hluti af heildarlengd hennar, enda er gildið sem hún lokar einungis 20 metra breitt.  Stærsti hluti stíflunnar er því fáeinir metrar á hæð.

Náttúruleg vötn nýtt til miðlunar.

Landslag á Vestfjörðum hentar illa til að byggja miklar stíflur og mynda stór uppistöðulón líkt og t.d. Blöndulón.  Sú stífla er byggð á hásléttu og hver metri í hæð geymir mikið vatn sem er langt umfram miðlunarmöguleika á Vestfjörðum.   Hvergi er hægt að virkja á hagkvæman hátt, hvorki á  Vestfjörðum né annarstaðar, án miðlana, nema um sé að ræða rennslisvirkjanir.  Hvalárvirkjun er af þeirri stærðargráðu að hún verður að hafa miðlanir, annars er stýranleiki virkjunarinnar ekki nægjanlegur.  Gríðarlegur fjöldi er af náttúrlegum vötnum á hálendinu frá Drangajökli og suður fyrir Steingrímsfjarðarheiði og spurningin er þá sú hvort nýting fárra vatna af heildinni sé ásættanlegt umhverfislega séð enda ekki verið að sökkva grónu landi sem neinu nemur.  Það sama á við um Glámuhálendið þar sem Orkubúið er að skoða virkjunarkosti.

Orkusvið janúar 2018
Sölvi R Sólbergsson

 

Metár í orkuvinnslu

12. janúar 2018 kl. 11:40

Vatnsaflsvirkjanir Orkubúsins framleiddu á árinu 2017 rúmlega 95 GWst, sem er met í 40 ára sögu fyrirtækisins.  Síðasta ár var samt ekki afgerandi gott vatnsár, heldur er þetta vegna meiri aflgetu, sem felst í nýjum vatnshverflum.  T.d. lauk uppsetningu á nýrri vél í Mjólká I haustið 2016.  Það ár tapaðist  3 GWst á meðan vélaskiptin áttu sér stað.  Framleiðslan 2016 var tæpar 93 GWst og hefði heildarframleiðslan þá orðið meiri en 2017 hefðu vélaskiptin verið yfirstaðin.

Nú er endurnýjun gömlu vélanna lokið í Mjólká.  Mjólká II var endurnýjuð 2011 og Mjólká III, sem var ný virkjun frá grunni, byggð 2010.  Meðaltal síðustu 10 ára fyrir 2011 í Mjólká var 61 GWst, en 2017 var framleiðsla virkjunarinnar 73 GWst.  Aflið er nú 11,2 MW en var 8,1 MW.  Samanburður á framleiðslu fyrri ára segir því ekki alla söguna.


Fossárvirkjun í Engidal

Fossárvirkjun er annað dæmi um vélaendurnýjun.  Ný vél var komið fyrir í nýju stöðvarhúsi haustið 2015 og framleiðslan var 5,7 GWst 2016 og 5 GWst 2017.  Afl vélarinnar nú 1.200 kW í stað 600 kW áður.  Vatnsbúskapurinn, sem er innrennslið í Fossavatn, gaf ekki tilefni til að tvöfalda vélastærðina, en lónið er það stórt að í bilanatilvikum í raforkukerfinu nýttist þetta aukna afl sem varaafl.  Þannig gagnast vélin vel til að spara olíu í eldsneytisstöðvum á svæðinu.  Meðaltal gömlu vélarinnar á árunum fyrir 2015 var tæpar 4 GWst/ári.

Orkusvið
Sölvi R Sólbergsson

 

 

Eldri færslur